Um okkur

Gróðrarstöðin Ártangi er stofnuð árið 1986 af okkur hjónunum Sigurdísi Eddu Jóhannesdóttur og Gunnari Þorgeirssyni. Þá vorum við nýkomin heim frá Danmörku þar sem við höfðum unnið við garðyrkju á nokkrum stöðvum og Gunnar hafði stundað nám í Gartnerskolen i Søhus.  Þegar heim kom byrjuðum við á því að byggja eitt 200 m2 plasthús og ræktuðum þar pottaplöntur (stofublóm). Við stækkuðum síðan og byggðum við og fjölguðum fólki, bættum við sumarblómum og laukblómum til að nýta húsakostinn allt árið um kring. Allt gekk þokkalega fram að hruni.

Árið 2013 hafði pottaplöntusalan dregist svo mikið saman að við urðum að breyta til. Við hættum nánast alveg með pottaplönturnar og prófuðum að rækta kryddjurtir í pottum. Fyrstu kryddjurtirnar fóru á markað fyrir jólin 2013 og viðtökurnar hafa verið frábærar.  Nú starfa á bilinu 7-10 manns í um 3000 mræktunarrými sem bæði eru gróðurhús og kælar. Þar framleiðum við núna kryddplöntur allan ársins hring. Á vorin erum við enn með sumarblóm, en laukblóm yfir veturinn.  Þar eru túlipanar langstærsta sölueiningin með tugum lita og afbrigða. Við seljum kryddjurtirnar í Sölufélag garðyrkjumanna, sem dreifa þeim svo fyrir okkur í dagvöruverslanir. Túlipanana og sumarblómin seljum við í Grænan markað sem dreifir fyrir okkur í blómabúðir. Á sumrin erum við líka með heimasölu og fólk sem á leið um getur stoppað og keypt hjá okkur kryddjurtir og blóm.

 Ártangi er vistvæn stöð, þó ekki séum við með neina vottun um slíkt. Við endurnýtum áburð, vatn og mold og notum lífrænar varnir.

Við lítum björtum augum til framtíðarinnar og leggjum mikla áherslu á að koma auga á ný tækifæri og nýta þau eins og bestur er kostur.

Scroll to top